Haukur og Guðrún kynntust á Bráðamóttökunni í Fossvogi sumarið 2018 þegar þau voru þar við sumarvinnu - Haukur þá hjúkrunarnemi og Guðrún læknanemi. Þau höfðu haft augastað hvort á öðru í nokkrar vikur þegar Haukur bauð Guðrúnu í partý með hjúkrunarfræðingum deildarinnar. Það kvöld áttu þau sinn fyrsta koss og eftir það varð ekki aftur snúið. Bráðamóttökunni var síðan haldið í eins konar Grey's anatomy gíslingu það sem eftir lifði sumars og vissara að banka að minnsta kosti tvisvar á allar dyr áður en farið var þar inn! Þau ræktuðu síðan ást sína í fjarsambandi í eitt ár, meðan þau kláruðu háskólanámið en Haukur var við nám í Noregi og Guðrún á Íslandi. Þau útskrifuðust bæði sumarið 2019 og byrjuðu að búa saman í Vesturbæ Reykjavíkur þá um haustið. Á fallegu aprílkvöldi í miðjum covid-faraldri árið 2020 fór Haukur svo á skeljarnar - og Guðrún sagði já. Upphaflega langaði þau að gifta sig úti á Ítalíu en af ákveðnum ástæðum sem óþarfi er að tíunda hér, er hægara sagt en gert að skipuleggja útlandaferðir þessa dagana. Þau ákváðu því að gifta sig innanlands en úti á landi - og gera sannkallaða þriggja daga langa sveitahátíð úr stóra deginum. Haukur og Guðrún hlakka til að fagna með ykkur á Siglufirði í júní.